22. desember 2024 kl. 0:25
Erlendar fréttir
Bandaríkin
Framleiðandi sjónvarpsþátta verður sérstakur erindreki
Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann hefði valið afkastamikinn framleiðanda sjónvarpsþátta sem sérstakan erindreka Bandaríkjanna í Bretlandi.
Mark Burnett er frá Bretlandi og stendur að baki fjölda vinsælla þáttaraða á borð við bandarísku raunveruleikaþættina Survivor, Shark Tank og The Apprentice. Þeir síðastnefndu snerust um að velja lærisvein fyrir Trump.
Burnett hefur unnið til þrettán Emmy-verðlauna á ferli sínum. Í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social sagði Trump að Burnett byggi yfir diplómatískri skarpskyggni eftir afbragðsárangur í sjónvarpsþáttagerð.