20 heimili fokið á haf út í óveðrinu

Svipmynd frá Nýfundnalandi.
Svipmynd frá Nýfundnalandi. AFP

Hitabeltisstormurinn Fíóna hefur valdið miklum usla í norðausturhluta Kanada en þúsundir heimila eru án rafmagns og hita og um 20 þeirra hafa fokið á haf út.

Hviðurnar hafa náð hraða sem nemur um 160 kílómetrum á klukkustund og tvær konur fuku á haf út eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi. Fréttamaður staddur á Nýfundnalandi segist aldrei hafa séð annað eins, þar sem hús stóðu eru nú rústir einar og heilu götumyndirnar horfnar. 

„Þetta er án efa það ógnvænlegasta sem ég hef á ævi minni séð,“ er haft eftir Rene Roy á vef BBC. Þar lýsir hann því hvernig heilu fjölbýlishúsin hafi horfið í óveðrinu. 

Boðar forföll vegna óveðursins

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada verður ekki viðstaddur útför fyrrverandi forsætisráðherra Japans, Shinzos Abes, vegna óveðursins. Hannn ætlar að vera í Kanada til að geta sinnt eftirmálum stormsins. 

Justin Trudeau mun ekki yfirgefa landið á meðan óveðrið gengur …
Justin Trudeau mun ekki yfirgefa landið á meðan óveðrið gengur yfir. AFP

Trudeau hefur kallað út herlið til þess að aðstoða við björgunaraðgerðir í Nýja-Skotlandi:

„Ef það er eitthvað sem alríkisstjórnin getur gert til þess að aðstoða, þá verður það gert,“ er haft eftir forsætisráðherranum á vef BBC

Viðvaranir í eystri kima landsins

Viðvörun vegna hitabeltisstorms var gefin út fyrir Nýja-Skotland, Nýju-Brúnsvík, Nýfundnaland, Prince Edward-eyju og hluta Quebec. 

Um 500.000 heimili eru án rafmagns og raforkuveitendur hafa varað fólk við því að það geti tekið fleiri daga að koma rafmagnsdreifikerfinu í samt lag eftir að storminn lægir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert