Tveir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar urðu fyrir kynþáttaníði

Callum Robinson fagnar öðru marki sínu í leiknum gegn Chelsea …
Callum Robinson fagnar öðru marki sínu í leiknum gegn Chelsea á laugardaginn. AFP

Enn bætist í hóp þeirra hörundsdökku leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu sem verða fyrir grófum kynþáttafordómum á samfélagsmiðlum. Um helgina urðu Callum Robinson, leikmaður West Bromwich Albion, og Davinson Sánchez, leikmaður Tottenham Hotspur, fyrir slíku níði.

Robinson fékk send ljót skilaboð eftir að hann skoraði tvö mörk gegn Chelsea í mögnuðum 5:2-útisigri WBA á laugardaginn. Félagið hefur ákveðið að kæra skilaboðin til lögreglu og leitar eftir hörðustu mögulegu refsingu fyrir hlutaðeigandi.

Sánchez birti skilaboðin sem hann fékk send eftir 2:2-jafntefli Tottenham gegn Newcastle United í gær og skrifaði á instagramaðgangi sínum: „Það breytist ekkert.“

Tottenham hefur kallað eftir því að stjórnendur samfélagsmiðla fari að gera eitthvað í þessum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert