Fjórðungur hefur séð eldgosið

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjórðungur fullorðinna landsmanna hefur farið að sjá eldgosið á Reykjanesskaga með eigin augum. Af þeim sem hafa ekki gert það telur meira en helmingur líklegt eða öruggt að hann geri það.

Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup.

Í byrjun apríl höfðu 16% fullorðinna landsmanna farið að gosinu en þeim fjölgar stöðugt sem fara á svæðið til að berja gosið augum og nú hefur ríflega fjórðungur gert það.

Næstum 3% til viðbótar hafa farið í áttina að gosinu og séð bjarmann af því og 19% hafa ekki séð gosið en hafa séð bjarmann af því án þess að gera sér sérstaka ferð til þess. Ríflega helmingur landsmanna hefur ekki enn séð gosið með eigin augum.

Af þeim sem hafa ekki farið að eldgosinu og séð það með eigin augum telur rösklega helmingur líklegt eða öruggt að hann muni gera það.

Flestir landsmenn hafa leitað sér frekari upplýsinga um eldgosið. Eins og í fyrri mælingu Þjóðarpúls Gallup hafa flestir þeirra leitað upplýsinga í fréttamiðlum á netinu, eða ríflega þrír af hverjum fjórum, og næstflestir í sjónvarpi, eða hátt í 63%.

Frá fyrri mælingu, sem var gerð nokkrum dögum eftir að gosið hófst, hefur þeim fjölgað sem leita sér upplýsinga um gosið á vef Veðurstofu Íslands. Hátt í helmingur hefur nú gert það, að því er kemur fram í Þjóðarpúlsinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert