Skrifaði undir á Hlíðarenda

Anna Rakel Pétursdóttir í leik með íslenska landsliðiðinu gegn Japan …
Anna Rakel Pétursdóttir í leik með íslenska landsliðiðinu gegn Japan árið 2018. AFP

Knattspyrnukonan Anna Rakel Pétursdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val en þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Miðjumaðurinn, sem er 22 ára gömul, kemur til félagsins frá Uppsala í Svíþjóð þar sem hún lék á nýliðnu tímabili en Uppsala endaði í neðsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og féll.

Anna Rakel kom við sögu í 20 leikjum með liðinu á tímabilinu, þar af var hún fjórtán sinnum í byrjunarliðinu.

Hún er uppalin hjá Þór/KA og lék með liðinu til 2019 þegar hún gekk til Linköping í sænsku úrvalsdeildinni.

Anna Rakel varð Íslandsmeistari með Þór/KA árið 2017 og á að baki 81 leik í efstu deild þar sem hún hefur skorað 10 mörk. Þá á hún að baki 7 A-landsleiki fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert