Höfða mál vegna Covid smita barna sinna

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Tveir foreldrar í Wisconsin í Bandaríkjunum hafa stefnt skólaumdæmum barna sinna vegna Covid-19 sýkinga sem þau hlutu í kennslustofum sínum.

Foreldrarnir saka umdæmin um að hafa ekki verndað börn þeirra nægilega vel gegn því að smitast af veirunni, að því er fréttastofa CNN greinir frá.

Bruggverksmiðja fjármagnar málsóknirnar

Bæði málin eru fjármögnuð af bruggverksmiðjunni Minocqua í Wisconsin, samkvæmt Facebook-síðu fyrirtækisins.

„Nýlega réðst bruggverksmiðjan Minocqua í eitt djarfasta verkefni sem við höfum tekið að okkur - að stefna öllum skólastjórnendum í Wisconsins sem ekki hafa fylgt leiðbeiningum sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir útbreiðslu á kórónuveirusmitum í skólum,“ segir í Facebook-færslu fyrirtækisins.

Á einungis tveimur vikum hafði bruggverksmiðjunni tekist að safna 50 þúsund bandaríkjadölum fyrir málstaðinn, að því er Kirk Bangstad eigandi verksmiðjunnar greindi frá á sunnudag.

Skólastofan „ormagryfju“ kórónuveirusmita

Fyrsta málið höfðaði Shannon Jensen gegn skólaumdæmi Waukesha, fræðsluráði umdæmisins, fjölda skólanefndarmanna og starfsmönnum umdæmisins fyrir alríkisdómstóli í síðustu viku, samkvæmt upplýsingum dómstólsins.

Á mánudaginn síðastliðinn lagði Gina Kildahl síðan fram kvörtun gegn skólaumdæminu Fall Creek, umsjónarmanni þess og einstökum stjórnarmönnum fyrir að „neita að innleiða sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19“, aðgerðir sem sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna hafði mælt með að yrðu innleiddar, samkvæmt kvörtuninni.

Sem stendur eru börn yngri en 12 ára ekki bólusett í Bandaríkjunum. Þegar kemur að óbólusettum börnum mælir sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna sérstaklega með alhliða grímunotkun, fjarlægðartakmörkunum, handþvætti, sýnatökum, sótthreinsun, sóttkví og einangrun.

Sem stendur eru börn yngri en 12 ára ekki bólusett …
Sem stendur eru börn yngri en 12 ára ekki bólusett í Bandaríkjunum. AFP

Bæði skólastjórnendur og almennir borgarar lögðu mikla áherslu á að nemendur fengju að mæta aftur í skólann í upphafi skólaársins en útfærslan á því hefur verið mikið ádeilumál á landsvísu. Sumstaðar hafa foreldrar mótmælt þeim sóttvarnaraðgerðum sem skólastjórnendur hafa innleitt en annarsstaðar hafa foreldrar óskað eftir harðari aðgerðum.

„Með því að færa nemendur aftur inn í skólana, í kennslustofur þar sem þeir eru innan um grímulaust starfsfólk og aðra utanaðkomandi aðila hentu skólastjórnendur börnunum í ormagryfju af kórónuveirunni,“ segir Gina í kvörtun sinni.

Þar segir einnig að tveir bekkjarfélagar barns hennar hafi smitast af veirunni á fjögurra daga tímabili frá 20. september til 24. september og að annar þeirra hafi ekki verið með grímu í skólanum á þessum tíma.

Þann 27. september hafi barn Ginu svo greinst smitað af veirunni sem olli því að það missti úr tvær vikur í skólanum.

Segir nærsamfélagið hafa verið sett í hættu

Í dómsskjölum Shannon segir að hún hafi sent börnin sín þrjú í Rose Glen grunnskólann skólaárið 2020 til 2021 og að skólinn hafi innleitt grímuskyldu, hitaprófanir og aðrar sóttvarnaraðgerðir.

Á þessu skólaári hafi skólanefnd umdæmisins þó greitt atkvæði um að taka flestar sóttvarnaraðgerðir úr gildi, þar með talið kröfuna um grímuskyldu. Shannon hafi látið börn sín bera grímur áfram en margir aðrir nemendur hafi verið grímulausir.

Í september hafi svo tvö börn hennar greinst smituð af kórónuveirunni.

Á þessu skólaári var grímuskyldu aflétt í Rose Glen grunnskólanum.
Á þessu skólaári var grímuskyldu aflétt í Rose Glen grunnskólanum. AFP

Skólastjórnendur hafi tilkynnt foreldrum að tveir nemendur hefðu smitast í bekk eins sonar Shannon um það leyti sem hann smitaðist sjálfur. Í samtali við foreldri annars barns í bekknum kom þó í ljós að smitin hafi raunar verið fjögur.

Í dómsyfirlýsingu sinni segir Shannon skort á sóttvarnaraðgerðum og samskiptaleysi skólastjórnenda hafa sett nærsamfélagið í hættu en sonur hennar hafði sótt kirkju- og skátastarf áður en hann greindist smitaður.

Óljóst er hve langur tími leið þar til börnin í bekknum greindust jákvæð og þar til skólastjórnendur létu foreldran vita af smitunum.

„Það að skólaumdæmið Waukesha neitaði að innleiða viðeigandi sóttvarnaraðgerðir til að draga úr dreifingu á kórónuveirusmitum hafði ekki aðeins áhrif á nánustu fjölskyldu okkar. Hefðum við fengið að vita fyrr af fyrstu smitunum í bekknum hefðum við getað komið í veg fyrir frekari útbreiðslu á veirunni í nærsamfélagi okkar,“ segir Shannon í dómsyfirlýsingu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert