Við vorum sjálfum okkur verstir

Haukur Helgi Pálsson
Haukur Helgi Pálsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukur Helgi Pálsson landsliðsmaður úr Njarðvík sagði eftir tapið gegn Valsmönnum í toppslag úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld að Njarðvíkingar hefðu verið sjálfum sér verstir í leiknum.

„Þeir lokuðu alveg á teiginn, spiluðu fáránlega góða sókn, fundu glufur alls staðar, settu þrista, og tóku okkur í raun alveg í sundur," sagði Haukur við mbl.is eftir leikinn.

Fannst þér eins og þeir væru búnir að kortleggja ykkur vel fyrir leikinn?

„Ekki endilega. Við vorum líka sjálfum okkur verstir. En kannski var það geimplanið, þeir náðu að komast inn í hausinn á okkur. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að fela það. Sennilega vissu þeir alveg hvað þeir ætluðu að gera. En það er líka jákvætt fyrir okkur. Við sjáum núna betur hvað okkur vantar.“

Það er þá kannski bót í máli að þó deildarmeistaratitillinn tapist að sjá þá veikleikana fyrir úrslitakeppnina núna?

„Já, örugglega. Við unnum deildarmeistaratitilinn í fyrra en það gerði ekki mikið fyrir okkur. Þetta fer allt eftir því hvernig þú heldur áfram með þetta. Sennilega var þetta fínt fyrir okkur. Auðvitað vildi ég helst hafa unnið þennan leik og fagnað titlinum hér, en maður þarf að horfa á þetta aðeins öðruvísi og reyna að bæta sig.“

Nú er einn leikur eftir, klassískur leikur í Keflavík. Er ekki tilvalið að rífa sig upp þar?

„Jú, algjörlega. Það verður mjög gaman að fá einn svoleiðis leik hérna fyrir úrslitakeppnina," sagði Haukur Helgi Pálsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert