Halla Þórlaug hlýtur Maístjörnuna

Halla Þórlaug Óskarsdóttir hlýtur Maístjörnuna 2020 fyrir Þagnarbindindi.
Halla Þórlaug Óskarsdóttir hlýtur Maístjörnuna 2020 fyrir Þagnarbindindi. mbl.is

„Ég bjóst alls ekki við að verða fyrir valinu þar sem ég var í góðum hópi öflugra höfunda. Ég er hins vegar mjög þakklát, enda er þetta mikill heiður,“ segir Halla Þórlaug Óskarsdóttir sem fyrr í dag hlaut Maístjörnuna 2020, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, fyrir bók sína Þagnarbindindi. Hlýtur hún að launum 350 þúsund krónur. 

Auk Þagnarbindindis voru tilnefndar bækurnar Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur; Draumstol eftir Gyrði Elíasson; Kyrralífsmyndir eftir Lindu Vilhjálmsdóttur og 1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur. Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2020 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Maístjarnan hefur verið veitt árlega síðan 2017.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2020 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar.

Dómnefnd skipa Sverrir Norland fyrir hönd Rithöfundasambandsins og María Logn Kristínardóttir Ólafsdóttir fyrir hönd Landsbókasafnsins. Í umsögn þeirra um verðlaunabókina segir: „Þagnarbindindi er áhrifarík ljóðsaga sem sver sig í ætt við ýmis eftirtektarverð verk frá síðasta áratug, jafnt innlend sem erlend, þar sem konur skrifa á hugdjarfan og hispurslausan hátt um sára og erfiða reynslu. Hér tekst skáldið meðal annars á við ástarsorg, móðurmissi og móðurhlutverkið og nær að draga upp margræða mynd af reynsluheimi ungrar konu sem er að stíga inn í fullorðinsárin og takast á við áföll og samskiptaerfiðleika. Útkoman er eftirminnileg bók sem sker sig úr, þökk sé eftirminnilegu myndmáli, óvenjulegri byggingu og frumlegum texta sem rambar á mörkum dagbókarskrifa, brotakenndrar frásagnar, ljóðtexta og ritgerðar.“

Halla Þórlaug Óskarsdóttir er fædd í Reykjavík 1988 og alin upp í Þingholtunum. Hún lauk BA prófi úr myndlist við Listaháskóla Íslands 2012 og MA prófi úr ritlist við Háskóla Íslands árið 2014. Halla Þórlaug hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1, sem umsjónarmaður Víðsjár, Tengivagnsins og Bókar vikunnar auk þess að fjalla um einstaka bækur í þættinum Orð um bækur.

Fyrir ljóðsögu sína Þagnarbindindi hlaut Halla nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2020. Halla Þórlaug hefur samið verk fyrir leiksvið og útvarp; Ertu hér? í samvinnu við Ásrúnu Magnúsdóttur, sviðsverk á dagskrá Borgarleikhússins 2021. Hún pabbi, í samvinnu við Trigger Warning, sviðsverk sýnt í Borgarleikhúsinu 2017 og Svefngrímur, útvarpsleikrit flutt 2016 á Rás 1. 

Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka