Fréttastofa hefur undanfarið fylgst með aðbúnaði sauðfjár á bænum Höfða í Borgarfirði en mikið hefur verið fjallað um að ekki sé gætt að velferð dýranna á bænum.
Settur yfirdýralæknir sagði í fréttum Bylgjunnar í gær að stofnunin hefði farið fram á úrbætur á búinu og fylgst væri með ástandi skepnanna þar. Hins vegar hefði það verið ýkt að nokkru í opinberri umræðu.
Sigríður Inga Sigurjónsdóttir dýralæknir segist hafa í gær keyrt meðfram hólfum sem kindurnar á bænum eru í. Sér hafi ekki litist á ástandið á nokkrum þeirra þar.
„Það eru þarna kindur út um allt á svolítið stóru svæði og það eru lömb þarna sem eru að fæðast úti, og það er ekki hlýtt. Tveggja stiga hiti. Annað lamb sem var greinilega viðskila við móður sína sem jarmaði bara eitt í girðingu. Það var enginn að passa upp á það að finna hvar mamman væri. Svo eru líka á þriðja tug hrafna að fljúga þarna og þú getur ímyndað þér hvað þau þurfa að hafa lítið fyrir fæðunni. Mér fannst þetta bara ömurlegt.“
Hún telur MAST ekki taka nógu ákveðið á málinu.
„Ég er ekki sammála kollega mínum honum Þorvaldi um að þetta væri ekki svo slæmt. Ég er ekki sammála því. Auðvitað er fullt af kindum þarna sem er allt í lagi með og eru komnar með lömb á legg. En hvernig var þetta þegar þau voru að fæðast úti fyrir tveimur til þremur vikum? Þetta hafa ekki verið hlýjustu apríl og maímánuðir.“