Munu ekki rannsaka Liverpool

Liverpool mun ekki sæta rannsókn vegna frestunar.
Liverpool mun ekki sæta rannsókn vegna frestunar. AFP

Enska deildakeppnin, EFL, ætlar ekki að rannsaka Liverpool frekar vegna fjölda falskra niðurstaðna úr skimunum við kórónuveirunni sem urðu til þess að fyrri leik liðsins gegn Arsenal í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu karla var frestað í síðustu viku.

Samkvæmt PA fréttaveitunni lítur EFL svo á að þau sönnunargögn sem Liverpool hafi lagt til á miðvikudag í síðustu viku í beiðni sinni um að láta fresta leiknum hafi verið viðunandi og því verði ekki aðhafst neitt frekar.

Þar segir einnig að allt að 40 leikmenn og starfsfólk Liverpool hafi skilað líklegum jákvæðum niðurstöðum.

Fyrst greindist fjöldi leik­manna Li­verpool já­kvæðir í hraðprófi og sömu leik­menn greindust svo einnig já­kvæðir þegar sjálf­stætt starf­andi rann­sókn­ar­miðstöð sá um ein­kenna­sýna­töku, þar sem stuðst var við svo­kölluð PCR-próf.

Þegar leik­menn­irn­ir voru skimaðir þriðja sinni, eft­ir að leik­ur­inn átti að fara fram þann 6. janú­ar, reynd­ust hins veg­ar all­ir leik­menn­irn­ir nema einn, Trent Al­ex­and­er-Arnold, nei­kvæðir.

Nokkur fé­lög­ höfðu farið fram á það við EFL að málið yrði rann­sakað nánar þar sem þau vildu fá það á hreint hvenær Li­verpool hafi í raun og veru vitað að leik­menn­irn­ir væru ekki smitaðir og þá hvort leik­ur­inn á fimmtu­dags­kvöld­inu hefði getað farið fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka