Ansi margir sem hafa áhuga á að spila fyrir Ísland

Guðlaugur Victor Pálsson með boltann í leiknum gegn Armeníu á …
Guðlaugur Victor Pálsson með boltann í leiknum gegn Armeníu á föstudagskvöld. mbl.is/Unnur Karen

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir traust milli hans og Guðlaugs Victors Pálssonar, sem dró sig úr landsliðshópnum um helgina, ekki horfið þó Arnar Þór hafi ekki verið sammála ákvörðun Guðlaugs Victors.

„Nei alls ekki. Ég reyni að taka sem fæstar ákvarðanir út frá einhverjum tilfinningum. Ég sagði það í gær að ég virði ákvörðun Gulla. Félagið hans er sá aðili sem borgar honum laun og ég skil knattspyrnuheiminn mjög vel. Við þurfum ekkert alltaf að vera sammála. Það eina sem gerist er það að þegar menn eru ekki á svæðinu er möguleiki fyrir aðra að stíga inn og gera vel.

Ef við horfum til dæmis á Stefán Teit [Þórðarson] í dag, ef við horfum á það sem Þórir [Jóhann Helgason] er að gera þá er það ljóst að það eru bara ansi margir sem hafa mikinn áhuga á að spila fyrir Ísland. Það er draumur allra drengja að spila fyrir Ísland,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi eftir 4:0 sigur gegn Liechtenstein í undankeppni HM í kvöld.

Hann sagðist munu ræða málin við Guðlaug Victor, sem byrjaði leikinn gegn Armeníu í undankeppni HM síðastliðið föstudagskvöld, við tækifæri.

„Traustið er alls ekki farið. Þetta verður náttúrlega rætt og eins og ég sagði áður skil ég aðstæður Gulla en auðvitað er ég ekki sammála ákvörðuninni,“ bætti Arnar Þór við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert