Húsfélög fresti aðalfundum

Húsfélög fá svigrúm til þess að fresta aðalfundum.
Húsfélög fá svigrúm til þess að fresta aðalfundum. mbl.is/RAX

Félagsmálaráðuneytið leggur til að aðalfundum húsfélaga verði frestað frekar um allt að sex mánuði hið minnsta, sökum samkomutakmarkana, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Þann 7. apríl síðastliðinn lagði félagsmálaráðyneytið til að aðalfundum húsfélaga yrði frestað um allt að sex mánuði vegna sóttvarnaraðgerða heilbrigðisráðuneytisins til að hægja á útbreiðslu veirunnar. Var það gert í ljósi þess að torvelt gæti reynst fyrir ákveðin húsfélög að halda aðalfundi fyrir þau tímamörk sem kveðið er á um í fjöleignarhúsalögum, þ.e. fyrir lok aprílmánaðar ár hvert samkvæmt 59.gr. laganna.

Mun ráðuneytið því ekki líta svo á að um brot á 59. gr. sé að ræða þótt aðalfundunum sé frestað. Þó skuli allir aðalfundir húsfélaga verða haldnir fyrir lok aprílmánaðar 2021 og mögulega sameinaðir aðalfundi húsfélags fyrir árið 2021. Þá er einnig lagt til að kjörtímabil stjórna húsfélaga verði framlengt um þann tíma sem nemur töfum á að halda aðalfund, þó aldrei lengur en til loka aprílmánaðar 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert