„Bjóst aldrei við því að það yrði keppt í rafíþróttum á Ólympíuleikunum,“

Ljósmynd/LAVA esports

Valdimar Steinarsson, einnig þekktur sem „Vaddimah“ er 21 árs gamall Rocket League leikmaður og keppir hann með rafíþróttaliðinu LAVA esports.

Stefnan sett á þriðja deildar- og Íslandsmeistaratitilinn

„Við erum ósigraðir á toppnum og ætli stefnan sé ekki sett á þriðja deildar- og Íslandsmeistaratitilinn í röð,“ segir Valdimar en hann er að keppa í TURF deildinni um þessar mundir.

Valdimar sækir skipulagðar æfingar þrisvar til fjórum sinnum í hverri viku með liðinu sínu en ofan á það keppir hann einu sinni til tvisvar í viku. Þegar hann spilar og keppir í Rocket League notast hann við fjarstýringar en að öllu jafna spilar hann í PC-tölvum.

Speglar sig í öðrum leikmönnum

„Þegar ég prófaði fyrst Rocket League þá hugsaði ég strax að ég vildi verða góður í honum, svo ég fór að fylgjast með bestu spilurum heims og reyndi að spegla það sem þeir voru að gera,“ segir Valdimar en hann byrjaði að spila fyrir sex árum síðan.

„Svo fann ég íslenska Rocket League samfélagið og þar voru haldin mót og sama hvort ég tapaði í hvert skipti þá var ekki feiminn að láta sjá mig aftur og aftur.“

Hjálpaði vinum sínum í tölvuleikjum

Valdimar keppir í Rocket League eins og fyrr var getið en heldur hann mikið upp á fyrstu persónu skotleikinn Call of Duty: Modern Warfare 2 og spilaði tölvuleikina Crash Bandicoot og Ratchet & Clank mikið á yngri árum.

Valdimar hefur því spilað tölvuleiki mikið í gegnum tíðina og þess má til gamans geta að þegar hann var lítill sóttu vinir hans í aðstoð Valdimars þegar þeir voru fastir á ákveðnum borðum í tölvuleikjum. Þá fór hann til vina sinna og kláraði borðin fyrir þá.

Bjóst ekki við að það yrði keppt í rafíþróttum á Ólympíuleikunum

„Ég hafði mikla von á því að rafíþróttir myndu fá virðinguna sem hún á skilið. En ég einhvern veginn bjóst aldrei við því að það yrði keppt í rafíþróttum á Ólympíuleikunum,“ segir Valdimar en hægt er að fylgjast með honum á Twitch rásinni vaddimah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka