Lífeyrisgreiðslur hjá LV hækkuðu um mánaðamótin

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur hækkað greiðslur.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur hækkað greiðslur.

Lífeyrisgreiðslur til 22.200 sjóðfélaga á lífeyri hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna hækkuðu um mánaðamótin sem nemur 7,2%. Lífeyrisgreiðslur í janúar hækkuðu því um 335 milljónir króna frá desember en alls greiddi sjóðurinn yfir 2.600 milljónir í lífeyri vegna janúar.

Janúargreiðslan var sú fyrsta eftir að samþykktum sjóðsins var breytt um áramótin, þar sem áunnin réttindi og lífeyrisgreiðslur sjóðsins hækkuðu. Í nóvember 2021 hækkuðu lífeyrisgreiðslur hjá LV og nú aftur í janúar 2023. Samtals hefur því hækkun lífeyrisgreiðslna verið 17,9% á rúmu ári, að því er segir í tilkynningu frá sjóðnum.

„Nú hefur samanlögð hækkun lífeyrisgreiðslna á rúmu ári verið 17,9% og að auki eru greiðslur verðtryggðar og breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs í hverjum mánuði,“ er haft eftir Margréti Kristinsdóttur, forstöðumanns lífeyrissviðs sjóðsins, í tilkynningunni.

„Samtals hefur því 100 þúsund króna greiðsla fyrir rúmu ári orðið að rúmlega 130 þúsund króna greiðslu hjá LV.“

Aukin áfallavernd og sveigjanleiki 

Bent er á að um áramótin hafi fleiri breytingar á samþykktum tekið gildi.

„Áfallavernd sjóðfélaga var aukin og sveigjanleiki til töku eftirlauna sömuleiðis. Nú geta sjóðfélagar til að mynda valið að hefja töku eftirlauna frá 60 ára aldri. Þeir sem halda áfram að vinna samhliða töku lífeyris fá árlegan endurútreikning réttinda og þannig hraðari uppfærslu réttinda en áður,“ segir í tilkynningunni.

„Lágmarkstími makalífeyris var lengdur og greiðslur hækkuðu. Sjóðfélagar semeru fjarverandi af vinnumarkaði t.d. vegna námsleyfis eða barneigna geta nú enduráunnið sér framreikningsrétt á aðeins 6 mánuðum í stað 36 mánaða áður.  

Aukin réttindi og hækkun lífeyris eru aðeins möguleg vegna góðs árangurs við ávöxtun sjóðsins undanfarin ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert