Bjarki fimmti markahæstur

Bjarki Már Elísson skorar eitt af 45 mörkum sínum á …
Bjarki Már Elísson skorar eitt af 45 mörkum sínum á HM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Már Elísson varð fimmti markahæsti leikmaður heimsmeistaramótsins í handbolta sem lauk í gærkvöld með sigri Dana á Frökkum í úrslitaleiknum í Stokkhólmi.

Bjarki skoraði 45 mörk í sex leikjum Íslands og var markahæstur þegar Ísland lauk keppni en þá höfðu öll liðin spilað sex leiki.

Fjórir leikmenn fóru síðan fram úr honum og þrír þeirra spiluðu níu leiki á mótinu en einn spilaði sjö.

Mathias Gidsel frá Danmörku varð markakóngur með 60 mörk og Erwin Feuchtmann, sem spilaði sjö leiki með Síle, varð annar með 54 mörk.

Síðan komu Þjóðverjinn Juri Knorr með 53 mörk og Daninn Simon Pytlick með 51 mark en þeir léku níu leiki hvor.

Gísli Þorgeir Kristjánsson varð fimmti stoðsendingahæstur á mótinu en eins og Bjarki var hann efstur í þeim flokki að sex leikjum loknum með 39 stoðsendingar.

Juri Knorr frá Þýskalandi varð stoðsendingakóngur mótsins með 52 slíkar í níu leikjum og Sander Sagosen frá Noregi varð annar með 49. Gidsel með 42 og Nedim Remili frá Frakklandi með 40 fóru einnig fram úr Gísla í síðustu leikjunum.

Juri Knorr átti þátt í flestum mörkum á mótinu, 105 þegar mörk og stoðsendingar eru lögð saman, og Gidsel kom næstur með 102.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert