Mögulega færri nýir blóðgjafar í ár

Landsmenn eru hvattir til að gefa blóð í Blóðbankann.
Landsmenn eru hvattir til að gefa blóð í Blóðbankann. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Vigdís Jóhannsdóttir á blóðsöfnunardeild Blóðbankans segir blóðgjafa hafa verið duglega að svara kallinu á tímum Covid-19. 

Blóðbankinn hefur tvisvar í vikunni óskað eftir O mínus blóðgjöfum, en O mínus er notað sem neyðarblóð þegar skyndilegar blæðingar verða vegna slysa eða bráða-aðgerða. 

„Við erum alltaf að passa okkur að eiga nóg af hverjum blóðflokki fyrir sig, sérstaklega kannski O mínus sem notast sem neyðarblóð. Á móti eru bara um 15% af þeim sem eru í O blóðflokki í O mínus. Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga þessa blóðflokka og safna þeim jafnt og þétt. Ef við förum niður fyrir einhver mörk förum við að hringja mikið og láta vita af okkur,“ segir Vigdís. 

Blóðgjafarnir okkar eru dugleg að svara kallinu og í dag er staðan bara ágæt. 

Blóðbankinn hefur náð að viðhalda starfssemi sinni þrátt fyrir Covid-19 faraldurinn. 

„Útaf Covid-19 þurfa allir að bóka tíma og Blóðbankabíllinn hefur ekki verið á ferðinni svo við fáum kannski minna af nýjum blóðgjöfum á þessu ári, við þurfum alltaf að fá þá til að hafa framtíðarblóðgjafa. Við höfum breytt ýmsu í ferlinu með tilliti til sóttvarna, þetta er kannski ekki eins kósý og hefur verið áður. En þetta er fólk sem er mjög óeigingjarnt og kemur til að gera sitt hvenær sem er,“ segir Vigdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert