Nýjasti Pokémon-leikurinn veldur vonbrigðum

Merki Pokémon UNITE.
Merki Pokémon UNITE.

Nýjasti Pokémon-leikurinn, Pokémon UNITE, kom út fyrir tveimur dögum síðan. Leikurinn er frábrugðinn öðrum Pokémon-leikjum en hann er í formi MOBA (Multiplayer Online Battle Arena) sem er sama tegund af leikjum og m.a. Dota 2 og League of Legends og keppa leikmenn á netinu gegn öðrum leikmönnum.

Núna þegar tveir dagar eru liðnir frá því að leikurinn kom út má sjá að margir á netheimum eru síður en svo sáttir við tekjumódel leiksins.

Eiga ekki að vera forskot

Í leikjum þar sem leikmenn spila gegn öðrum leikmönnum er almennt talið mikilvægt að allir keppi á jafnri grundu, og ekki sé hægt að nota raunverulegan pening til að fá forskot í leiknum. Í það allra minnsta má slíkt forskot ekki vera eitthvað sem þeir leikmenn sem ekki fjárfesta í leiknum geti ekki unnið sér inn á annan hátt.

Í MOBA-leikjum hefur t.d. stundum verið farin sú leið að hægt er að kaupa fleiri hetjur til að spila með raunverulegum pening eða vinna þær inn með tíma. Hetjur eru þó allar jafnar innbyrðis, og býður þetta spilurum því einungis upp á fjölbreytileika en ekki endilega forskot.

Hægt að kaupa til að vinna

Nú er það hins vegar orðið ljóst að í Pokémon UNITE geta leikmenn notað raunverulegan pening til að styrkja leik sinn. Hefur leikurinn því fengið á sig stimpilinn „pay to win“ frá mörgum sem gefur til kynna að hægt sé að kaupa til að vinna.

Er þetta litið svo alvarlegum augum að það má í raun segja að með þessu hafi Pokémon UNITE sjálft drepið eiginlega alla drauma um að verða samkeppnishæf rafíþrótt.

Hægt er að sjá ítarlega færslu um kerfið sem notast er við í Pokémon UNITE á þessum Reddit-þræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert