Tveir handteknir í tengslum við líkamsárás og bruna

Tveir karlmenn um þrítugt voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Húsleitir voru jafnframt framkvæmdar, en rannsókn lögreglunnar tengist bruna í fjölbýlishúsi í Úlfarsárdal þar sem bensínsprengju var kastað inn í íbúð, líkamsárás og hótunum. Í aðgerðunum í gær naut lögreglan aðstoðar sérsveitarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Tengist málið myndböndum sem hafa verið birt á samfélagsmiðlum sem sýna meðal annars þegar bensínsprengjunni er kastað inn í fjölbýlishúsið og líkamsárás.

Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að hvorugur mannanna hafi verið vopnaður, en í gær hafði lögregla afskipti af þremur mönnum í Fellahverfi vegna gruns um að einn þeirra væri vopnaður. Svo var þó ekki. Þá sést í einu af myndböndunum sem vísað er til hér að ofan karlmaður hóta öðrum í gegnum síma og mundar hann meðal annars skotvopn og beitir í hótunum sínum.

Elín segir að yfirheyrslur vegna málsins muni fara fram í dag og að ekki sé hægt að gefa upp frekari upplýsingar að svo stöddu.

Vísir greindi frá því að eigandi íbúðarinnar sem bensínsprengju var kastað inn í sé sá sami og hafi gengið í skrokk á öðrum manni í myndbandi en lögreglan hefur ekki viljað staðfesta það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka