Tilkynningar um kynferðisbrot færri en síðustu ár

Kynferðisbrotum fjölgar milli mánaða en fækkar á milli ára.
Kynferðisbrotum fjölgar milli mánaða en fækkar á milli ára. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 34 tilkynningar um kynferðisbrot í febrúar, þar af áttu 22 brot sér stað í febrúar. Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgar mikið á milli mánaða, en skráðar tilkynningar voru 13 í janúar, þar af 12 sem áttu sér stað í mánuðinum.

Tilkynningum um kynferðisbrot fækkar engu að síður miðað við síðustu ár, en það sem af er ári hafa borist 33 prósent færri tilkynningar um kynferðisbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár. Sé horft til heildarfjölda tilkynninga óháð þeim mánuði sem brotin sjálf áttu sér stað, er fækkunin 27 prósent fyrir sama tímabil.

Alls voru skráð 660 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í febrúar og fjölgaði brotum á milli mánaða. Það sem af er ári hafa hinsvegar borist átta prósent færri tilkynningar en á sama tímabili síðastliðin þrjú ár.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir febrúarmánuð.

Beiðnum um leit að týndum börnum fækkar mikið 

Einnig kemur fram að 65 tilkynningar hafi borist um heimilisofbeldi í febrúar, tveimur fleiri en í janúarmánuði. Það sem af er ári hafa hins vegar borist 7 prósent færri tilkynningar en að meðaltali síðustu þrjú ár, fyrir sama tímabil.

Tíu beiðnir bárust um leit að týndum ungmennum febrúar, en þær voru sjö í janúar. Það sem af er ári hefur beiðnum þó fækkað um 45 prósent miðað við meðaltal síðustu þriggja ára.

Fíkniefnabrotum fjölgaði á milli mánaða en sjö stórfelld fíkniefnabrot voru skráð á höfuðborgarsvæðinu í febrúar, miðað við eitt slíkt skráð brot í janúar. Það sem af er ári hafa þó verið skráð 37 prósent færri fíkniefnabrot í heildina, en að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert