Óvíst hvort liðin og dómararnir komist á leikstað

Aron Pálmarsson leikur með danska meistaraliðinu Aalborg.
Aron Pálmarsson leikur með danska meistaraliðinu Aalborg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvíst er hvort danska liðið Aalborg og ungverska liðið Pick Szeged geti mæst í Meistaradeild karla í handbolta í Álaborg í kvöld en hvorki liðin né dómararnir komust í höllina á tilsettum tíma vegna óveðurs sem nú gengur yfir norðurhluta Jótlands.

Viðureign liðanna átti að hefjast klukkan 17.45 en hefur verið frestað um tvo tíma og á að flauta til hans klukkan 19.45. Samkvæmt hbold.dk liggja allar samgöngur í Álaborg og nágrenni niðri og bæði liðin og dómarar leiksins séu enn að berjast við að komast leiðar sinnar og í Gigantium-höllina þar sem leikurinn á að fara fram. Blindhríð er á svæðinu.

Takist að hefja leik kl. 19.45 má búast við því að margir af þeim 5.000 áhorfendum sem þegar höfðu keypt miða á leikinn verði ekki á staðnum. 

Aron Pálmarsson leikur með Aalborg og Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins. Pick Szeged er með 12 stig eftir átta umferðir í öðru sæti A-riðils Meistaradeildarinnar en Aalborg er með 10 stig í fjórða sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert