Hringing á ókristilegum tíma var rafmagnsbilun

Þriðja klukkan af fjórum vakti íbúa um helgina.
Þriðja klukkan af fjórum vakti íbúa um helgina. mbl.is/Ómar

Bilun kom upp í stýribúnaði einnar af fjórum kirkjuklukkum Háteigskirkju sem olli því að bjallan hringdi klukkan tvö aðfaranótt sunnudags og vakti íbúa á svæðinu upp frá værum svefni.

Daníel Trausti Róbertsson, kirkjuhaldari Háteigskirkju segir rafvirkja hafa komið og kíkt á kerfið í dag og komist að þessari niðurstöðu. Klukkan muni nú vera aftengd og kirkjan muni hringja bjöllum sínum við nauðsynleg tilefni eins og jarðarfarir þar til hún hefur verið lagfærð. Vonast sé til þess að það taki ekki langan tíma.

Hann segist hafa talið fyrst um sinn að fuglar sem safnist oft upp við klukkurnar hafi ollið biluninni en svo var ekki.

„Það hefði nú verið skemmtileg afsökun fyrir þessu en þetta var nú bara því miður eitthvað rafmagnsvesen.“  

Daníel segir íbúa hverfisins ekki þurfa að vera hrædda við hringingar eða athuganir um miðja nótt þegar varahlutir hafi verið útvegaðir. Tilvikið hafi verið einangrað en vissulega óheppilegt að það hafi orðið um miðja nótt.

Þegar því er velt upp að bilun sem þessi hafi aldrei komið upp áður segir Daníel bilunina vera sérstaklega leiðinlega þar sem að skipt hafi verið um búnað og farið yfir klukkurnar árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert