Áreitti vegfarendur og hrækti framan í öryggisvörð

Lögreglu var í gærkvöldi tilkynnt um mann sem áreitti gangandi vegfarendur auk viðskiptavina og starfsfólks verslunar í miðbænum. Maðurinn hrækti einnig framan í öryggisvörð. 

Fram kemur í dagbók lögreglu að maðurinn hafi verið farinn af vettvangi þegar lögregla kom þangað. 

Síðdegis í gær var tilkynnt um ölvaðan mann sem hafði hrasað og slasast. Maðurinn reyndist ekki mikið slasaður en var fluttur á slysadeild til skoðunar. Þá var skömmu síðar tilkynnt um sofandi mann á gangstétt, en maðurinn var farinn þegar lögreglumenn komu. 

Lögregla stöðvaði þrjá ökumenn í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. 

Þá var í gærkvöldi tilkynnt um eld í hjólhýsi á Vesturlandsvegi. Slökkvilið slökkti eldinn og engin slys urðu á fólki, en hjólhýsið er líklega ónýtt. 

Þá varð lögregla vör við stolna bifreið í umferðinni snemma í morgun. Ökumaður og farþegi voru í annarlegu ástandi og fíkniefni fundust í bifreiðinni. Aðilarnir voru vistaðir í fangaklefa þar til þeir verða hæfir í skýrslutöku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert