Merkur áfangi í sögu blóðgjafar á Íslandi

Ljósmynd/Blóðbankinn

Óli Þór Hilmarsson, sérfræðingur hjá Matís, gaf blóð í 200. skipti í dag, sem Blóðbankinn kallar „merkan áfanga í sögu blóðgjafa á Íslandi.“ Óli er einn af örfáum sem hefur gefið blóð eins oft. Sá fyrsti til að ná áfanganum var Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri.

Óli Þór gefur fyrst og fremst blóðflögur núna en hefur gefið blóð í ýmsum myndum í áratugaraðir. Hann sat í stjórn Blóðgjafafélags Íslands um árabil.

„Þetta er keppni í heil­brigði. Sum­ir fara til lækn­is reglu­lega og fá staðfest­ingu á því, en ef þú gef­ur blóð og færð að gefa blóð þá ertu heil­brigður, lík­am­lega alla­vega,“ sagði Óli Þór í viðtali við mbl.is árið 2018, þegar hann var heiðraður fyrir að hafa gefið blóð 175 sinnum.

Við þau tímamót sagði hann markmiðið að ná 200 skiptum, ef heilsan leyfði. Fyrst gaf hann blóð fyrir rúmum fjörutíu árum.

Í því viðtali var einnig vikið að þeirri skemmtilegu staðreynd að þessir tveir blóðgjafargreifar, Óli Þór og Ólafur Helgi Kjartansson, eru náfrændur, komnir frá sama bæ, Miðvík í Aðalvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert