Hótaði að kveikja í sér fyrir utan Útlendingastofnun

Maðurinn er á fertugsaldri.
Maðurinn er á fertugsaldri. mbl.is/Hari

Maður á fertugsaldri hótaði því að hella yfir sig íkveikjuvökva og kveikja í sér fyrir utan Útlendingastofnun um hádegi í dag. Lögregla náði að róa manninn niður og stöðva verknaðinn.

Þetta staðfestir Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við mbl.is.

„Hann var ósáttur og hótaði sjálfsskaða. Lögreglan ræddi við hann og hann lét af því og fær svo viðeigandi aðstoð,“ segir Þóra. Hún viti þó ekki hvað hafi legið að baki ósættinu. 

Tilbúnir með slökkvitæki til öryggis

Spurð hvort manninum hafi orðið meint af segir hún svo ekki vera.

Atburðarásin hafi verið á þá leið að Útlendingastofnun hafi hringt í neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð en lögreglustöðin Dalvegi er í sömu byggingu og Útlendingastofnun. Lögreglubifreið hafi verið skammt undan þegar lögregluþjónar á Dalvegi hafi farið út og rætt við manninn.

Þóra segir að brugðist hafi verið við á rólegan og yfirvegaðan máta. Þá hafi lögregluþjónar verið tilbúnir með slökkvitæki ef allt færi á versta veg.

Uppfært klukkan 14.58: 

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins kemur fram að maðurinn hafi verið ósáttur við afgreiðslu á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Umsóknin sé til meðferðar hjá yfiurvöldum. 

Þá hafi slökkvilið verið í viðbragðsstöðu auk lögreglu en útkall vegna málsins barst klukkan 12.23 og var aðgerðum lokið fyrir klukkan eitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert