Frekja og yfirgangur að vera svekktur

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska liðsins, á hliðarlínunni í kvöld.
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska liðsins, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er bæði frekja og yfirgangur að vera svekktur með jafntefli gegn Svíum,“ sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli eftir 1:1-jafntefli Ísland og Svíþjóðar í F-riðli undankeppni EM.

„Ég er samt drullufúll að hafa ekki unnið leikinn því þetta var frábær leikur hjá okkur og mjög vel spilaður. Það kom einhver tuttugu mínútna kafli í fyrri hálfleik þar sem Svíarnir ógnuðu og voru sterkari aðilinn.

Annars fannst mér við spila leikinn frábærlega og ég er virkilega ánægður að koma til baka gegn svona sterku og öflugu liði, eftir að hafa lent undir. Það sýnir vegferðina sem við erum á og hugarfarið í hópnum.

Við vorum drullufúlar að vera undir í hálfleik því okkur fannst við hafa skorað löglegt mark en við gáfumst aldrei upp og ég er gríðarlega sáttur og stoltur af mínu liði.“

Íslenska liðið í leikslok.
Íslenska liðið í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mótlætið bugaði okkur ekki

Íslenska liðið skoraði mark undir lok fyrri hálfleiks en króatískur dómari leiksins, Ivana Martincic, ákvað að dæma markið af.

„Ég hef í raun ekkert um dómgæsluna að segja. Þetta mark sem var dæmt af var ekkert brot eftir því sem ég kemst næst.  Glódís stóð bara þarna og fer upp í boltann ásamt markmanni Svía. Hún stekkur bara upp, hreyfir sig aldrei til hliðar, og þess vegna er þetta svekkjandi.

Þrátt fyrir þetta mótlæti þá brotnum við aldrei heldur styrkti það okkur. Það er góður eiginleiki að hafa í liði en sýnir enn og aftur hversu stórir karakterar og leiðtogar eru í liðinu. Það eru margir undir leikmenn að koma inn í hópinn og þeir eru bæði agaðir og gríðarlega einbeittir.

Þeir létu mótlætið ekki buga sig heldur sem er frábært og eins og ég hef áður sagt þá er ég virkilega stoltur af liðinu og öllum hópnum í kvöld,“ bætti Jón Þór við á blaðamannafundi íslenska liðsins.

Dagný Brynjarsdóttir vann nokkur skallaeinvígi í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir vann nokkur skallaeinvígi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert