Upprunalega átti leikur KR og HK að fara fram fimmtudaginn 8. ágúst en hafði þá þegar verið frestað um einn dag vegna framkvæmda í Kórnum. Þar hafði verið skipt um gervigras í aðdraganda leiksins.
Bæði lið voru mætt til leiks þegar upp kom að annað markið á vellinum var brotið. Leikmenn, stuðningsmenn og fleiri voru mættir í Kórinn en hætta þurfti við leikinn.
Í kjölfarið sendu KR-ingar stjórn KSÍ erindi vegna ákvörðunar mótanefndar að setja leikinn á 22. ágúst. Athugasemdir þeirra virðast ekki hafa fengið hljómgrunn.
Stjórn KSÍ vísaði málinu frá með vísun í grein 15.6 í reglugerð um knattspyrnumót, en þar er talað um „óviðráðanlegar orsakir“ fyrir því að leikur fari ekki fram, svo sem veður eða ástand vallar.
Að mati KR-inga á sú grein ekki við. Að HK, sem framkvæmdaraðili leik beri ábyrgð á því að mörkin séu í lagi. Í reglum KSÍ segir að varamörk eigi að vera til staðar, en svo var ekki í Kórnum.
Í yfirlýsingu KR er bent á að málið sé fordæmisgefandi og því telja KR-ingar brýnt að dómstólar KSÍ úrskurði í málinu. Þeir velta því upp hvað gerist þegar græjurnar eru ekki í lagi á leikstað og hver beri ábyrgð á því.
Sú afstaða, að málið sé fordæmisgefandi, rímar við orð Birkis Sveinssonar, mótastjóra KSÍ, sem segir mál sem þetta ekki hafa komið upp áður.
Aga- og úrskurðarnefnd mun taka málið fyrir á reglubundnum fundi sínum á morgun, þriðjudag. Niðurstöðu er því að vænta seinni partinn á morgun. Þetta staðfestir Jörundur Áki Sveinsson, starfandi framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við íþróttadeild Vísis.
Þjálfari HK ekki viljað pæla í þessu
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var spurður út í möguleikann á því að HK verði dæmdur ósigur af aga- og úrskurðarnefnd eftir leik HK við Fylki í gær.
Hann kveðst ekki hafa velt málinu fyrir sér og HK-ingar búi sig undir leik á fimmtudag.
„Ég bara hef hvorki gefið mér né viljað taka tíma í það að velta því fyrir mér. Við undirbúum okkur bara fyrir það að það sé leikur á fimmtudaginn. Hvað verður er ekki í okkar höndum. Það þýðir ekkert að velta sér upp úr því,“
„Við getum allavega ekki beðið með það að undirbúa okkur, það er alveg á hreinu, við sáum það mjög augljóslega hér í kvöld. Við þurfum bara að undirbúa okkur fyrir það að mæta KR,“ sagði Ómar Ingi eftir 2-0 tap HK fyrir Fylki í Kórnum í gærkvöld.