Helgi Seljan fer af Rúv á Stundina

Helgi Seljan hefur starfað á Rúv frá árinu 2006.
Helgi Seljan hefur starfað á Rúv frá árinu 2006. Samsett mynd

Fjölmiðlamaðurinn Helgi Selj­an hefur sagt upp störfum hjá Ríkisútvarpinu. Hann er í leyfi og hyggst ekki snúa aftur úr því, en Stundin hefur greint frá því að hann hefji þar störf sem rannsóknarritstjóri hinn 15. febrúar.

Kjarninn sagði frá því að Helgi hafi birt stöðuuppfærslu á lokuðu vefsvæði fyrir starfsmenn RÚV, þar sem hann greinir frá uppsögn sinni. Þar segi hann að fjöldi uppsagna á meðal fréttamanna RÚV undanfarið hafi ekki gert ákvörðun sína léttbæra. mbl.is hefur ekki náð tali af Helga í dag vegna málsins, en í svari við fyrirspurn mbl.is í gær neitaði hann því að hann væri hættur.

Helgi starfaði síðast við gerð fréttskýringaþáttarins Kveiks, og þar áður í Kastljósi. Hann hefur þó verið í leyfi frá störfum í nokkur tíma en hann hóf störf hjá Ríkisútvarpinu árið 2006.

Skammt er liðið frá því að Einar Þorsteinsson, einn umsjónarmanna Katsljóss, sagði upp störfum sömuleiðis. 

Þá hætti Rakel Þorbergsdóttir störfum sem fréttastjóri hjá Rúv um áramótin eftir tæplega átta ár í því starfi. Þá hættu þeir Aðal­steinn Kjart­ans­son og Stefán Drengs­son, sem störfuðu með Helga í Kveik, einnig hjá Rúv á síðasta ári. Þá fór Lára Ómarsdóttir og gerðist upplýsingafulltrúi Azteq Fund. Meðal annara starfsmanna, sem horfið hafa á braut á liðnu ári má nefna Sunnu Valgerðardóttur, Sigrúnu Davíðsdóttur, Þórhildi Þorkelsdóttur, Hauk Harðarson, Orra Frey Rúnarsson og Fanney Birnu Jónsdóttur.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert