Zlatan með veiruna og mætir ekki Alfons

Zlatan Ibrahimovic er kominn með kórónuveiruna.
Zlatan Ibrahimovic er kominn með kórónuveiruna. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hefur greinst með kórónuveiruna og er kominn í einangrun á heimili sínu.

Þetta tilkynnti AC Milan, félag hans, í dag, aðeins nokkrum tímum fyrir heimaleik liðsins gegn Alfons Sampsted og félögum í norska toppliðinu Bodö/Glimt sem eru andstæðingar ítalska félagsins í 3. umferð Evrópudeildarinnar á San Siro í Mílanó í kvöld.

Fram kemur í tilkynningu AC Milan að enginn annar hafi reynst smitaður af veirunni í skimun sem allir leikmenn liðsins gengust undir í gær, en áður hafði einn þeirra, Leo Duarte, reynst vera með veiruna.

Zlatan var mjög frískur síðasta mánudagskvöld en þá skoraði hann bæði mörk AC Milan í sigri á Bologna í ítölsku A-deildinni. Hann gerði nýjan samning við félagið fyrir mánuði síðan, til eins árs, en Zlatan er orðinn 38 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert