Toppliðin röðuðu inn mörkum

KR-ingar fagna marki Ingunnar Haraldsdóttur í kvöld.
KR-ingar fagna marki Ingunnar Haraldsdóttur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR er áfram með fimm stiga forskot á toppi Lengjudeildar kvenna í fótbolta eftir sannfærandi 4:1-sigur á HK á heimavelli í kvöld.

Ena Sabanagic kom HK óvænt yfir strax á sjöundu mínútu en Ingunn Haraldsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir svöruðu fyrir KR fyrir hlé. Í seinni hálfleik bætti Ardern Holden við þriðja marki KR og fjórða markið var sjálfsmark.

Á Seltjarnarnesi vann FH öruggan 5:1-sigur á Gróttu. FH er því enn þá í öðru sæti. Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir, Selma Dögg Björgvinsdóttir, Elísa Lana Sigurjónsdóttir og Brittney Lawrence skoruðu allar fyrir FH og eitt markið var sjálfsmark. Eydís Lilja Eysteinsdóttir skoraði mark Gróttu. 

Afturelding fylgir hins vegar FH-ingum eins og skugginn. Afturelding vann þægilegan 4:0-heimasigur á Víkingi og er aðeins einu stigi á eftir Hafnarfjarðarliðinu. Kristín Þóra Birgisdóttir gerði tvö mörk fyrir Afutreldingu og þær Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir og Ragna Guðrún Guðmundsdóttir sitt markið hvor. 

Augnablik fór upp úr botnsætinu með 4:2-sigri á ÍA á heimavelli. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir gerði tvö mörk fyrir Augnablik og þær Brynja Sævarsdóttir og Margrét Lea Gísladóttir skoruðu einnig. Dagný Halldórsdóttir og Dana Sheriff skoruðu mörk ÍA.

Grindavík er fallið niður í botnsætið eftir 2:3-tap fyrir Haukum á útivelli í hörkuleik á Ásvöllum. Harpa Karen Antonsdóttir, Vienna Behnke og Hildur Karitas Gunnarsdóttir skoruðu mörk Hauka og komu liðinu í 3:0. Unnur Stefánsdóttir og Ása Björg Einarsdóttir klóruðu í bakkann fyrir Grindavík. 

Fréttin verður uppfærð með frekari upplýsingar um markaskorara.

Staðan í deildinni:

  1. KR 28
  2. FH 23
  3. Afturelding 22
  4. Haukar 15
  5. Víkingur 13
  6. Grótta 13
  7. ÍA 10
  8. HK 9
  9. Augnablik 8
  10. Grindavík 8
Það var hart barist í Vesturbænum í kvöld.
Það var hart barist í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert