Skiptum á þrotabúi Hótel Sögu ehf. lauk þann 28. febrúar síðastliðinn. Lýstar kröfur í búið námu 734,9 milljónum króna, að því er kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Samþykktar veðkröfur að fjárhæð 36,8 milljónir króna voru greiddar að fullu. Samþykktar forgangskröfur upp á 73 milljónir voru einnig greiddar að fullu. Upp í samþykktar almennar kröfur að fjárhæð 625 milljónir greiddust 8,4 milljónir, eða um 1,3%.

Hótel Saga ehf., sem rak samnefnt hótel undir merkjum Radisson Blu að Hagatorgi, var tekin til gjaldþrotaskipta í september 2021. Hótel Saga ehf. var í eigu Bændasamtakanna. Fasteignin var einnig í eigu Bændasamtakanna í gegnum félagið Bændahöllin ehf.

Í árslok 2021 náði ríkið og Félagsstofnun stúdenta samkomulagi um kaup á fasteigninni. Húsnæðið verður bæði nýtt undir starfsemi Menntavísindasviðs HÍ og stúdentaíbúðir.