„Þetta var bara martröð“

Mynd úr þvottahúsi þar sem bruninn varð.
Mynd úr þvottahúsi þar sem bruninn varð. Skjáskot/Facebook

„Þetta hljóð ómar bara í hausnum á manni,“ segir Birna Gylfadóttir en hún og fjölskylda hennar, sem búa á Eyrarbakka, þurftu að rýma húsnæði sitt um helgina eftir að eldur braust út vegna sprengingar í rafhlaupahjóli.

Í færslu sinni á Facebook-hópnum Hjálpumst að á Eyrarbakka og Stokkseyri og nágrenni greindi Birna frá því að hún og maður hennar hefðu verið að horfa á þátt í sjónvarpinu þegar rosalegur hvellur hljómaði úr þvottahúsinu. 

Þá hafi rafhlaða í rafhlaupahjóli sem var í hleðslu í þvottahúsinu þeirra sprungið og leitt til bruna. Frá þessu greindi sunnlenski fréttamiðillinn DFS í gær.

„Gardínurnar í stofunni flökta út um gluggann,“ segir Birna í samtali við mbl.is. „Og við hlaupum bara út á gang og þá er allt orðið svart af reyk.“

Rafhlaðan í rafhlaupahjólinu sprakk með háum hvelli.
Rafhlaðan í rafhlaupahjólinu sprakk með háum hvelli. Skjáskot/DFS

Basl að koma öllum út

Þvottahúsið er við sama gang og svefnherbergi sona þeirra þriggja. Hjónin höfðu þá hraðar hendur. Birna sótti drengina inn í herbergin sín á meðan Ívar, eiginmaður hennar, sótti slökkvitæki og hóf að slökkva eldinn í hlaupahjólinu.

Þá náði hún að fá tvo af drengjunum úr húsi en átti í basli við að vekja þann þriðja.

„Þeir fara út, sem sagt, miðjustrákurinn minn og elsti en ég næ ekki að vekja yngsta. Og ég endaði með því að ég þurfti að draga hann fram á gang með öllum lífs og sálar kröftum til þess að hann vaknaði loksins.“

Ívar náði sem betur fer að slökkva eldinn með slökkvitækinu en enn fyllti reykur ganga húsnæðisins. Birna segir að það hafi komið slökkviliðinu á óvart að eiginmaður hennar hafi náð að slökkva eld af þessari stærð með kolsýruslökkvitæki, þar sem um rafhlöðueld var að ræða en slökkvitækið var aðallega hannað fyrir olíu- og gaselda.

Allir heilir á húfi

Slökkviliðsfólk reykræsti húsnæðið. Hjónin fengu væga reykeitrun og Ívar fékk súrefnisgjöf í sjúkrabíl en Birna segir að allir séu heilir á húfi. „Drengirnir sluppu alveg og það er alveg ótrúlegt því að við náðum þeim náttúrulega út á nokkrum sekúndum.“

Birna greinir frá því í færslu sinni að fjölskyldan hafi síðan farið náttbuxum og nærfötum á þrjá mismunandi dvalarstaði þessa nóttina. Hún segir að þau geti ekki fengið að fara aftur í húsið fyrr en á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku. Nú dvelur fjölskyldan í sumarbústað á Eyrarbakka sem er í eigu systur Birnu.

Mikilvægt að fleiri lendi ekki í þessari martröð

Birna vill vara aðra rafhlaupahjólaeigendur við og minna þá á að hafa aðgát þegar verið er að hlaða rafhlaupahjól, en tækin hafa orðið afar vinsæl á seinustu árum og margir sem hlaða þau innandyra.

„Það er mér rosalegt hjartans mál, af því ég veit að fólk er að hlaða þetta inni hjá sér, við hliðina á rúmunum sínum, allsstaðar, að þetta komi ekki fyrir annars staðar— að það lendi enginn annar í þessari martröð. Þetta var bara martröð.“

Húsnæðið ótryggt en nágrannar koma til hjálpar

Hún segir að tryggingar fjölskyldunnar hafi fallið úr gildi um miðjan febrúar en Eyrbekkingar og Stokkseyringar hafi margir lagt fjölskyldunni hönd á plóg.

„Við búum í svo æðislegu samfélagi að foreldrar í 7. bekk í Eyrarbakka- og Stokkseyrarskóla hafa sett á fót söfnun fyrir okkur. Miðjustrákurinn okkar er sem sagt í þeim bekk og það er bara ótrúlegt hvað allir eru boðnir og búnir.“

Hún kveðst þakklát fyrir að fólk, og jafnvel að fólk sem hún þekki ekki, hafi hjálpað fjölskyldunni.

Hægt er að leggja inn á hjálparsjóð fjölskyldunnar:

Reikningsnúmer: 0370-26-025500
Kennitala: 0607862409

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert