Ritstjórn DV send í sóttkví

Öll ritstjórn DV hefur verið send í sóttkví eftir að smit kom þar upp. Þá er til skoðunar hvort senda þurfi starfsmenn Fréttablaðsins einnig í sóttkví, blöðin eru bæði í eigu útgáfufélagsins Torgs og til húsa á skrifstofu við Kalkofnsveg á Hafnartorgi.

Á vefsíðu DV er greint frá því að um sé að ræða konu sem hafi gegnt hlutastarfi sem smitaðist. Sótti hún ritstjórnarfund á þriðjudaginn með blaðamönnum. Hafi öll ritstjórnin verið send í sóttkví vegna málsins að undanskildum einum blaðamanni sem var í fríi þennan dag. Segir jafnframt að konan hafi væg einkenni og að aðrir starfsmenn DV og Torgs hafi ekki fundið til einkenna.

Tekið er fram að sóttvarnir á skrifstofum Torgs hafi verið hertar og þetta muni ekki hafa áhrif á útgáfu miðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert