Vilja 50 milljónum lægra framlag til stærstu miðla

Til stendur að útdeila 400 milljónum til einkarekinna fjölmiðla á …
Til stendur að útdeila 400 milljónum til einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Greiðslurnar fara eftir umfangi en enginn miðill á þó að geta fengið meira en 100 milljónir. Þingmenn Pírata og Samfylkingar vilja lækka þakið niður í 50 milljónir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata í allsherjar- og menntamálanefnd hafa skilað inn minnihlutaáliti um frumvarp um stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla. Leggja þeir til að hámarsksendurgreiðslur til hvers fjölmiðils verði ekki hærri en 50 milljónir, í stað 100 milljóna eins og lagt er upp með.

Samkvæmt frumvarpi sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi verður sérstöku stuðningskerfi fyrir einkarekna fjölmiðla komið upp en ætlunin er að veita alls 400 milljónir í styrk á árinu. Til stóð að kerfið yrði varanlegt, en meirihluti nefndarinnar ákvað síðar að það skyldi aðeins gilda til áramóta sem er til marks um þá óeiningu sem er um málið innan stjórnarflokkanna.

Lagt er til að hver miðill geti fengið allt að 25% af rekstrarkostnaði endurgreiddan, en þó með þeim takmörkunum að enginn miðill geti fengið meira en 100 milljónir í sinn hlut. Framkvæmdin yrði því svipuð og þegar styrkir voru veittir til fjölmiðla á síðasta ári. Þá hafði ráðherra einnig reynt að koma upp varanlegu styrkjakerfi en að lokum fallist á einskiptisgreiðslu, sem réttlætt var með vísan til faraldursins.

Árvakur, sem rekur Morgunblaðið, mbl.is og K100, fékk mest í sinn hlut eða tæpar 100 milljónir króna en því næst Sýn, sem rekur Stöð 2, Vísi og Bylgjuna, 91 milljón, og Torg sem gefur út Fréttablaðið, 65 milljónir.

Yrði breytingartillaga Samfylkingar og Pírata samþykkt fengju þessir miðlar því minna í sinn hlut en ella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert