Ekki af baki dottinn og ætlar að opna B5 aftur

Sverrir Einar Eiríksson hefur sent frá sér yfirlýsingu.
Sverrir Einar Eiríksson hefur sent frá sér yfirlýsingu. Ljósmynd/Aðsend

Sverrir Einar Eiríksson, veitingamaður og eigandi skemmtistaðanna B5, Exit og Nýju vínbúðarinnar hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann segir beiðni skattayfirvalda um að innsigla B5 vera lögmæta. Hins vegar telur hann misskilnings gæta sem leitt hefur til lokunar Exit og Nýju vínbúðarinnar. 

Eins og fram kom innsiglaði lögreglan stöðunum að beiðni skattayfirvalda fyrr í dag. Þeir eru allir eru í eigu Sverris. Hann segist hins vegar ekki að baki dottinn og hyggist opna B5 að nýju í maí. 

Þungur rekstur

„Rekstur B5 í Bankastræti hefur verið þungur eftir að til lokunar kom í kjölfar yfirgangs og afskipta lögreglu sem kvartað hefur verið yfir til lögreglu. Beiðni skattayfirvalda um lokun á staðnum er því lögmæt og ekki gerður ágreiningur um hana. Staðurinn hefur enda verið lokaður um nokkurn tíma. Unnið er að því að greiða úr þeim málum og stefnt að opnun aftur í maí,“ segir í tilkynningu frá Sverri. 

Ekkert upp á reksturinn að klaga 

„Rekstur skemmtistaðarins Exit og Nýju Vínbúðarinnar er hins vegar rekstrarfélagi B5 óviðkomandi virðist einhvers misskilnings gæta um heimild til að fara fram á lokun á þeim rekstri. Úr þeim málum verður leyst í snarhasti, enda hafa skattayfirvöld ekkert upp á þann rekstur að klaga,“ segir Sverrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert