„Við erum með vilja og hjarta til að berjast fram á síðustu mínútu“

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA var sáttur eftir 3:1 sigur gegn Leikni í Pepsi Max deild karla í dag. „Þetta er bara rosalega góð tilfinning. Það var gaman að fylgjast með strákunum koma inn í þetta verkefni. Þeir höfðu trú á þessu og ætluðu sér að ná í þessi þrjú stig.“

„Umtalið um okkur í sumar hefur ekki verið gott. Við höfum trú á því og ætlum okkur að vera áfram í efstu deild á næsta ári, þetta var bara eitt skref í átt að því. Það sem ég var ánægður með var bara trúin og viljin hjá strákunum og svo gæðin á köflum til þess að knýja fram þennan sigur í dag“

Landsleikjahléið virtist hafa verið einstaklega vel nýtt á Akranesi. „Við fórum bara í það að reyna að vinna í öllum þáttum leiksins sem við getum bætt okkur í. Það er ekki eitthvað eitt sem hefur verið afgerandi lélegt hjá okkur. Auðvitað höfum við oft verið klaufar og getað varist betur en við sýndum það í dag að getum varist vel. Það eru atriði sem við þurfum að halda áfram að þróa og það er það sem að landsleikjahléið fór í.“

Þegar tvær umferðir eru eftir eiga Skagamenn enn séns á að halda sér uppi. Jóhannes Karl er bjartsýnn fyrir framhaldinu. „Við höfum talað um það marg oft að deildin var bara sett svona upp að þessir þrír leikir eru síðustu leikirnir okkar. Þessir spennandi leikir sem eru framundan eru rosalega mikilvægir en við eigum bikarinn í millitíðinni. Við erum með vilja og hjarta til að berjast fram á síðustu mínútu fyrir þeim stigum sem eru í boði og við ætlum okkur að vinna Fylki þegar þeir koma hingað.“

„Það eru fullt af leikmönnum sem eiga helling inni og eru ennþá á uppleið. Það er að mínu mati jákvætt þegar það er bikarævintýri framundan hjá okkur og möguleiki á að tryggja okkur í efstu deild. Í lok tímabils með menn á uppleið, menn sem eru að finna betra form þá munum við hafa trú sem fleytir okkur inn í næstu vikur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert