Tíminn styttur milli skammta í bólusetningu

Vel gengur að bólusetja í Laugardalshöllinni.
Vel gengur að bólusetja í Laugardalshöllinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem nú þegar hafa fengið fyrri skammt af AstraZeneca-bóluefninu hafa margir hverjir fengið boð um seinni bólusetningu töluvert fyrr en upphaflega stóð til. Verið er að stytta tímann milli skammta til þess að reyna að standast bólusetningaráætlun stjórnvalda.

Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við mbl.is. 

Upprunalega stóð til að 12-14 vikur þyrftu að líða á milli skammta, en nú er verið að stytta þann tíma almennt niður í 8-9 vikur. Þó geta þeir sem fengu fyrri skammt fyrir að lágmarki fjórum vikum fengið seinni skammt, sé nauðsynlegt að flýta honum.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg

Stór vika

Það stefnir í stóra viku í bólusetningum. Eins og áður hefur komið fram verða þúsundir einstaklinga bólusettar daglega út vikuna.

Karlar fæddir 1978, 1979, 1993, 1992, 1983 og konur fæddar 1984, 1978, 1998 og 1986 hafa fengið boð í bólusetningu á þriðjudag en þessir hópar munu fá Pfizer-bóluefni. Á fimmtudag hafa karlar fæddir 1984, 1977, 1997, 1985, 1976 og konur fæddar 2000, 1981, 1980 og 1988 fengið boð í bólusetningu. Þá fá þessir hópar Janssen-bóluefni. Á miðvikudag verður bólusett með AstraZeneca og þá einungis um að ræða seinni bólusetningu.

Segir allt ganga vel

Ragnheiður segir allt ganga vel þrátt fyrir að mikill fjöldi fólks sé bólusettur daglega og að einstaklingar fái stuttan fyrirvara til þess að mæta í bólusetningu. Allt sé gert til þess að bólusetningaráætlun stjórnvalda standist. 

„Það verður gaman að sjá hvort okkur takist þetta svona á endasprettinum. Þetta er brött áætlun að reyna að koma þessu öllu saman.“

Ragnheiður bendir þó á að bólusetningaráætlunin sé gerð með fyrirvara um að nægt bóluefni berist til landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert