Þýsku félögin óska eftir upplýsingum um sóttvarnir

Svo virðist sem HSÍ þurfi að berjast fyrir því að …
Svo virðist sem HSÍ þurfi að berjast fyrir því að fá landsliðsmenn til landsins í næsta verkefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þýsk handknattleiksfélög sem eru með íslenska landsliðsmenn í sínum röðum hafa sent Handknattleikssambandi Íslands bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um sóttvarnir hérlendis. 

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir að sambandið muni svara félögunum og útskýra fyrir þeim stöðuna á Íslandi. Tíminn verði að leiða í ljós hver niðurstaðan verði. 

Málið snýst um hvort félögin vilji láta leikmenn frá sér fara til Íslands til að spila landsleiki gegn Litháen og Ísrael í Laugardalshöll 4. og 7. nóvember. 

Róbert tjáði mbl.is í dag að í bréfinu komi fram að Þjóðverjarnir áskilji sér rétt til að gefa HSÍ svar um miðja næstu viku varðandi það hvort leikmennirnir fái að koma í leikina. „Við munum verða í sambandi við félögin en einnig erum við í sambandi við EHF [Handknattleikssamband Evrópu] út af þessu. Þetta snýst auðvitað um fleiri landslið en íslenska landsliðið. Leikmenn í Þýskalandi spila fyrir landslið víða í Evrópu,“ sagði Róbert. 

Þegar keppt er í undankeppnum stórmóta þá eiga sérsamböndin rétt á að fá leikmenn í landsleiki og Róbert segir að nú eins og áður geri HSÍ kröfu um að fá leikmenn í leikina. 

„En þeir hafa áhyggjur af sínum leikmönnum vegna veirunnar og það er ósköp eðlilegt. Við munum því útskýra fyrir þeim hvernig sóttvarnarreglum er háttað hér. Næstu skref verða svo að koma í ljós,“ sagði Róbert. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert