Leggur til gjafsókn í máli þar sem ung kona lést

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. mbl.is/Eggert

Umboðsmaður Alþingis leggur til við dómsmálaráðherra að foreldrum ungrar konu, sem lést í kjölfar afskipta lögreglu af henni, verði veitt gjafsókn í skaðabótamáli gegn íslenska ríkinu.

Unga konan, Hekla Lind Jóns­dótt­ir, lést 9. apríl í fyrra, en hún var þá 25 ára. Kom til átaka milli hennar og lögreglumanna eftir að lögregla var send til að aðstoða Heklu. Foreldrar hennar töldu lögregluna hafa farið offari við handtökuna og var það kært til héraðssaksóknara.

Málið var rannsakað af embætti héraðssaksóknara sem ákvað að fella málið niður og staðfesti ríkissaksóknari þá niðurstöðu. Í kjölfarið ákváðu foreldrarnir að höfða skaðabótamál og óskuðu eftir því við umboðsmann að embættið nýtti heimild sína til að leggja til að þeim yrði veitt gjafsókn.

„Rétturinn til lífs og mannhelgi nýtur verndar samkvæmt íslenskum stjórnlögum og alþjóðasamningum um mannréttindi. Af því leiðir að gera verður ríkar kröfur til þeirrar valdbeitingar sem talin er nauðsynleg við framkvæmd handtöku og þá því frekar þegar handtaka leiðir til líkamstjóns eða dauða. Af réttinum til lífs leiðir einnig að tryggja ber að andlát sé upplýst með viðhlítandi hætti, s.s. opinberri rannsókn, og fyrir hendi séu úrræði til að þeir sem bera ábyrgð á andláti séu látnir sæta henni með einum eða öðrum hætti, þar á meðal með einkaréttarlegum úrræðum,“ segir í tilkynningu á vef umboðsmanns.

Segir þar jafnframt að rannsókn á andlátinu lyti að mikilvægum hagsmunum foreldranna og að eðlilegt væri að dómstólar leystu úr mögulegum ágreiningi í málinu. Tekur embættið fram að í tillögunni til ráðherra felist ekki nein afstaða til atvika málsins eða lagaatriða, annarra en að foreldrarnir fengju óhindrað leyst úr þeim vafaatriðum sem uppi væru fyrir dómstólum, sér að skaðlausu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert