Við bjuggum saman í þrjú ár

Fred skorar fyrsta mark leiksins með glæsilegu langskoti.
Fred skorar fyrsta mark leiksins með glæsilegu langskoti. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Mér líður frábærlega,“ sagði Brasilíumaðurinn Fred í samtali við mbl.is eftir 4:1-heimasigur Fram á Keflavík í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Fred skoraði tvö mörk í leiknum og lagði upp eitt.

„Við gerðum þetta mjög vel í kvöld og vonandi höldum við áfram á þessari braut og gerum betur en við höfum gert að undanförnu. Stuðningsmennirnir munu hjálpa okkur á þeirri vegferð. Þetta var erfiður leikur á móti góðu liði sem berst vel og hleypur mikið. Við vissum að þetta yrði barátta og við börðumst vel á móti,“ sagði Fred um leikinn.

Fyrra markið hans kom með glæsilegu langskoti og það seinna með stórskemmtilegri vippu eftir sendingu frá Portúgalanum Tiago.

„Eitt af mínum séreinkennum eru langskot. Ég tek margar aukaæfingar til að æfa langskotin. Þetta var glæsilega gert hjá Tiago í seinna markinu, hann er mikill stærðfræðingur og reiknaði þetta fullkomlega og sendingin var fullkomin. Við ræddum þetta í eina sekúndu og svo framkvæmdum við þetta vel,“ sagði Fred um mörkin sín.

Hann og Tiago voru bestu menn vallarins í kvöld og þeir eru góðir og miklir vinir. „Hann hefur verið einn af mínum bestu vinum frá því við kynntumst árið 2018. Við bjuggum saman í þrjú ár. Við náum mjög vel saman á vellinum,“ sagði Fred.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert