650 milljóna hagræðing á ári

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir að minnsta kosti 650 milljóna króna hagræðingu á ári við sameiningu tíu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í þrjár stofnanir. Núverandi starfsmenn njóta forgangs í störfin í nýju stofnununum. Störf forstöðumanna þeirra verða aftur á móti auglýst þegar stofnanirnar hafa verið samþykktar.

Reiknað er með því að lagafrumvörp um nýju stofnanirnar verði lögð fram á Alþingi í síðasta lagi næsta haust og að verkefninu ljúki á næsta ári.

Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is.

„Maður veit aldrei hvernig hlutir þróast á Alþingi en þetta er algjörlega í samræmi við það sem flestir ef ekki allir eru sammála um,“ segir ráðherrann, spurður hvort hann hafi áhyggjur af því hvort frumvörpin verði samþykkt.

Fólk á ferð um Landmannalaugar.
Fólk á ferð um Landmannalaugar. mbl.is/RAX

Þróun á nýjum störfum

Stofn­an­ir ráðuneyt­is­ins í dag eru 13 með um 600 starfs­menn á um 40 starfs­stöðvum víða um land og eru 61% starf­anna á höfuðborg­ar­svæðinu. Inntur eftir því hvað verði um störf forstöðumanna núverandi stofnana við sameininguna segir Guðlaugur Þór: „Þetta verða mun stærri stofnanir heldur en þær sem eru núna og það mun eðlilega verða þróun á nýjum störfum,“ segir ráðherrann.

Hvað hagræðinguna varðar vegna sameiningarinnar segir hann hóflega ætlað að 650 milljóna króna hagræðing náist á ári hverju og hún verði nýtt í mikilvæg verkefni sem heyra undir ráðuneytið. Einnig skapist möguleikar í tengslum húsnæðismál og unnið verði með Framkvæmdasýslu ríkisins vegna þeirra.

Mikil vinna lögð í undirbúning

„Við hófum þessa vegferð í júní á síðasta ári með virkri þátttöku forstöðumanna og starfsmanna. Við höfum lagt mikla vinnu í undirbúninginn, bæði að greina sóknarfærin í þessu og sömuleiðis að skipuleggja ákveðna tímalínu sem var lagt upp með í byrjun,“ heldur Guðlaugur Þór áfram og bætir við að vinna sé strax hafin varðandi áætlun um sameiningu á grundvelli þessara hugmynda sem núna liggja fyrir. Gert er ráð fyrir því að árið 2025 verði sameiningin tekin út og metið hvernig hún hefur gengið.

Yfirlitsmynd um skörun á verkefnum stofnana innan ráðuneytisins.
Yfirlitsmynd um skörun á verkefnum stofnana innan ráðuneytisins. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór segir gríðarlega stórar áskoranir heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og ljóst að stærri og öflugri stofnanir geti tekist betur á við þær. „Þetta snýst fyrst og fremst um sókn frekar en vörn.“

Lögð verður mikil áhersla á að styrkja starfsstöðvar úti á landi, ekki þó með því að færa til fólk, heldur með eðlilegri endurnýjun í starfsmannahaldi. Ný störf verði til úti á landi. „Varðandi opinberar stofnanir er mestur halli á höfuðborgarsvæðinu. Ef við ætlum að ná árangri verðum við að vinna með nærsamfélaginu á hverju svæði fyrir sig. Það er hugmyndafræðin í þessu og henni verður fylgt eftir.“

Enginn afsláttur af náttúruvernd

Í Loftslagsstofnun sameinast Orkustofnun og öll svið Umhverfisstofnunar, fyrir utan náttúruverndarsvið. Þessar tvær stofnanir hafa að sumu leyti verið mismunandi pólar í umræðunni hérlendis en Guðlaugur Þór áréttar að náttúruverndin úr Umhverfisstofnun muni heyra undir Náttúruverndar- og minjastofnun.  

Húsnæði Umhverfisstofnunar.
Húsnæði Umhverfisstofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er sama hvernig við nálgumst þessa hluti, það þarf alltaf að gera það í jafnvægi. Græn orka er ekki bara loftslagsmál heldur líka umhverfismál en á sama hátt þarf alltaf að líta til náttúruverndar líka og líffræðilegrar fjölbreytni,“ greinir Guðlaugur Þór frá. Engir andstæðir pólar verði í nýju stofnuninni. „Í öllum okkar störfum liggur fyrir að við þurfum alltaf að gæta að jafnvægi og það er ekki verið að gefa neitt eftir þegar kemur að náttúruvernd, heldur þvert á móti.“

Veðurstofa Íslands verður hluti af Náttúruvísindastofnun. Guðlaugur Þór segir skörun vera til staðar núna á milli stofnana þegar kemur að rannsóknum, mælingum, vöktum og öðru slíku. Með sameiningunni verði aukinn kraftur settur í þessi verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert