Sátu hjá grímulausu fólki í sundfötum

Nikola Karabatic er mættur með Frökkum á EM.
Nikola Karabatic er mættur með Frökkum á EM. AFP

Landsliðsmenn Frakklands í handknattleik eru ekki ánægðir með þá aðstöðu sem þeir voru settir í þegar þeir komu á hótel sitt í Ungverjalandi á mánudag en þeir hefja keppni á Evrópumótinu á fimmtudaginn.

Nikola Karabatic, skyttan þrautreynda, sagði við L'Equipe að leikmönnunum hefði brugðið verulega þegar þeir mættu í sína fyrstu máltíð á hótelinu.

„Við vorum steinhissa og hálf sjokkeraðir yfir því að sjá að gestir á hótelinu voru almennt ekki með grímur, og að við vorum síðan látnir setjast að borðum með öðrum gestum," sagði Karabatic, en gríðarlega strangar sóttvarnareglur eru settar af Evrópska handknattleikssambandinu, EHF.

„Við sátum við hliðina á grímulausu fólki í sundfötum við morgunverðarborðið og ég veit ekki hvort það telst ásættanlegt," sagði Vincent Gerard.

Þjálfarinn Guillaume Gille var afdráttarlaus í sinni afstöðu. „Þetta eru stór mistök gagnvart hinum ströngu reglum EHF. Þetta er ekki ásættanlegt," sagði Gille.

Fram kemur hjá L'Equipe að Frakkar hafi kvartað til EHF og fengið svör um að þessu yrði kippt í liðinn hið snarasta.

Frakkar mæta Króötum í fyrsta leik sínum í Szeged á fimmtudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert