„Væri mjög fínt ef það væri vorbragur á okkur“

Mist Edvardsdóttir í baráttunni við Andreu Rut Bjarnadóttur í leiknum …
Mist Edvardsdóttir í baráttunni við Andreu Rut Bjarnadóttur í leiknum í kvöld. Kristinn Magnússon

„Þetta var hörkuleikur milli tveggja liða sem voru tilbúin til þess að leggja á sig það sem þurfti til að ná í þrjú stig. Við fengum færi og þær fengu einhver færi líka en við skiptum þessu jafnt á milli okkar í dag.“

Þetta sagði Mist Edvardsdóttir, miðvörður Vals, í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli Valskvenna gegn Þrótti í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu á Eimskipsvellinum í Laugardalnum í kvöld. Hún sagði leikmenn Vals þó ekki sáttar við niðurstöðuna:

„Nei, alls ekki. Við fórum inn í þennan leik til þess að koma heim með sigur og eins og sást þá vorum við að leggja alla áherslu á að sækja hérna undir lokin til þess að ná í þessi þrjú stig. Okkur tókst ekki nægilega vel að skapa. Jú við sköpuðum okkur góðar stöður og komumst alveg í einhver færi en náðum ekki alveg að binda endahnútinn á góðar sóknir þannig að svo fór sem fór.“

Mist sagðist ekki geta skrifað nokkuð ryðgaðan sóknarleik Vals í kvöld á hinn alræmda vorbrag. „Kannski myndi maður einhvern tímann segja það en við vorum bara svo helvíti góðar í vor þannig að það væri mjög fínt ef það væri vorbragur á þessu hjá okkur! Það gekk svo vel þá.

Það kom svona smá hikst í okkur eftir síðasta Covid-stoppið. Við verðum kannski aðeins að reyna að smyrja þessu saman aftur, það er smá ryð í okkur. Við þurfum aðeins að finna uppspilið okkar aftur, vonandi kemur það.“

Að lokum sagði hún ekki hægt að ganga að neinu sem vísu í deildinni í ár. „Ég held að það hafi sýnt sig í kvöld að deildin í ár verður ekkert þannig að Valur og Breiðablik vinna bara alla leiki og svo verði það úrslit úr innbyrðis leikjum þeirra sem ráða úrslitum í deildinni að lokum.

Það eru bara hörkugóð lið í þessari deild og við getum ekki búist við því að fara inn í leiki og ætlast til þess að fara heim með þrjú stig án þess að hafa fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert