„Fullkomlega eyðilagður en er með ótrúlegt stuðningsnet“

Harvey Elliott liggur sárþjáður á vellinum á Elland Road í …
Harvey Elliott liggur sárþjáður á vellinum á Elland Road í gær á meðan læknateymi Liverpool hugar að honum. AFP

Harvey Elliott, ungstirni enska knattspyrnufélagsins Liverpool sem meiddist illa í leik gegn Leeds United í gær, er gífurlega þakklátur fyrir allan þann stuðning sem honum hefur verið sýndur.

„Ég er auðvitað fullkomlega eyðilagður yfir því sem gerðist í Leeds í gær en öll ástin og stuðningurinn sem mér hefur verið sýndur af fótboltaheiminum eins og hann leggur sig í kjölfar meiðslanna hefur verið yfirþyrmandi,“ skrifaði Elliott á Instagram-aðgangi sínum.

Hann meiddist afar illa á ökkla þegar hann fór úr lið og þarf á aðgerð að halda vegna þess. Óttast er að Elliott sé ökklabrotinn.

„Kærar þakkir til allra sem hafa sett sig í samband við mig og sent mér og fjölskyldu minni skilaboð, það skiptir okkur miklu máli. Ég vil einnig þakka öllum sem voru á Elland Road í gær fyrir viðtökurnar strax eftir að þetta gerðist,“ bætti hann við.

Þrátt fyrir áfallið lætur hinn 18 ára gamli Elliott engan bilbug á sér finna.

„Ég einbeiti mér nú fyllilega að bata mínum og mun gefa allt sem ég á í endurhæfingu minni með það fyrir augum að komast aftur á völlinn eins fljótt og ég get. Ég veit að ég er með ótrúlegt stuðningsnet á bak við mig hjá Liverpool og veit að við munum komast saman í gegnum þetta.

Til allra Liverpool-stuðningsmanna, stuðningur ykkar snertir mig djúpt. Ég er einn ykkar og get ekki beðið eftir því að koma til baka hraðari, í betra formi og sterkari til þess að hjálpa liðinu í framtíðinni. Þið gangið aldrei ein,“ skrifaði hann einnig á Instagram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert