Handbolti

Rifjuðu upp fautabrögð: Setti fingurinn þangað sem sólin skín ekki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ýmsum brögðum er beitt á handboltavellinum.
Ýmsum brögðum er beitt á handboltavellinum. getty/Christof Koepsel

Hinar dökku hliðar handboltans voru meðal þess sem var til umræðu í EM-hlaðvarpi Seinni bylgjunnar. Þeir Ásgeir Örn Hallgrímsson og Róbert Gunnarsson rifjuðu upp ansi vafasamt bragð sem einn mótherji þeirra greip til.

Stefán Árni Pálsson fékk þá Ásgeir Örn og Róbert hvaða bolabrögðum handboltamenn beita helst.

„Elsta trixið í bókinni, fyrir utan almennar kýlingar, er að klemma. Þá rétti sóknarmaður upp höndina og klemmir höndina á varnarmanninum þannig að hann situr algjörlega eftir. Þetta er mjög gamalt trix,“ sagði Ásgeir Örn.

„Frægasta trixið er Júggatrixið þegar hornamaður fór inn og þú lyftir undir fótinn á honum. Sem betur fer er það löngu búið og við upplifðum það ekki. Það var stórhættulegt.“

Róbert rifjaði upp fautabragð sem einn leikmaður sem hann mætti oft beitti. „Þá ertu að reyna að stuða sóknarmanninn. Línumenn lenda mikið í þessu, eða varnarmenn frá línumanni,“ sagði Róbert. Hann ætlaði ekki að útskýra málið neitt frekar en Ásgeir Örn tók af honum orðið.

„Það var einn leikmaður sem við þekkjum mjög vel sem var dálítið í því að reyna að setja fingurinn þangað sem sólin skín ekki,“ sagði Ásgeir Örn.

„Á einu stórmóti var þetta tekið fyrir. Mér finnst það vera ljótasta trixið. Það er bara ógeðslegt,“ sagði Róbert.

Hlusta má á EM-hlaðvarp Seinni bylgjunnar í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×