Árásarmaðurinn neitaði að nota grímu

Starfsmaður verslunar miðsvæðis í Reykjavík óskaði í gærkvöldi eftir aðstoð lögreglu eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás af hendi viðskiptavinar verslunarinnar sem neitaði að nota andlitsgrímu í samræmi við grímuskyldu. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en talsverður erill var hjá lögreglunni í gærkvöldi og nótt. Meðal annars sinnti lögregla ellefu verkefnum þar sem tilkynnt var um samkvæmishávaða í heimahúsum. 

Skömmu eftir klukkan 18 var aðili handtekinn eftir líkamsárás og vistaður í fangaklefa sökum ölvunar. Um klukkan 18:20 barst lögreglu síðan tilkynning um grunsamlegar mannaferðir við fjölbýlishús í Hlíðahverfi. Í ljós kom að íbúðin var notuð undir kannabisræktun og voru tveir aðilar handteknir á vettvangi og vistaðir í fangaklefa. 

Þá sinnti lögregla eftirliti með samkomustöðum í miðborginni í gær og var farið á alls 15 staði til að fylgjast með sóttvörnum, fjölda gesta og afgreiðslutíma. Á flestum þessara staða voru ráðstafanir góðar, en á einum stað voru of margir gestir og meint hólfaskipting, í A- og B-hólf, ógreinileg. 

Þá var tilkynnt umferðaróhapp þar sem vespu hafði verið ekið á ljósastaur. Ökumaður var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku til aðhlynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert