Barn á fyrsta ári liggur inni vegna Covid-19

Heilbrigðisstarfsfólk Landspítalans að störfum.
Heilbrigðisstarfsfólk Landspítalans að störfum. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Eitt barn á fyrsta ári liggur á Landspítalanum vegna Covid-19. Um 60 börn eru í nánu eftirliti Barnaspítala Hringsins vegna veirunnar. Daglega koma þangað tvö til fimm börn til skoðunar. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna.

Frá fyrsta janúar hefur fjöldi þeirra sem hafa verið lagðir inn vegna kórónuveirunnar aukist um 70%. FJöldi á gjörgæsludeild hefur staðið nokkuð í stað. Þrír létust á Landspítala á síðustu fimm dögum vegna Covid-19.

Eitt 17 ára barn hefur þurft að leggjast inn á spítala vegna aukaverkana eftir bólusetningu við kórónuveirunni. Sex tilkynningar hafa borist um alvarlegar aukaverkanir af um 22 þúsund bólusetningum barna, eða um 0,03%, að sögn Þórólfs. 

Alls hafa 10 börn yngri en 16 ára þurft að leggjast inn vegna Covid-19 hér á landi af um 9.300 börnum sem hafa greinst með veiruna, eða um 0,1%.

Tvö börn hafa þurft að leggjast inn á gjörgæslu. Auk þess hafa hundruð barna þurft að vera í nánu eftirliti Barnaspítala Hringsins vegna veikinda við Covid-19.

Ekki eru komnar fram óhyggjandi niðurstöður um virkni bóluefna hjá börnum gegn Ómíkron-afbrigðinu. Þórólfur sagði virkni bóluefna gegn Delta-afbrigðinu aftur á móti jafngóða og jafnvel betri hjá börnum en hjá fullorðnum eftir örvunarskammt. Hann sagði útbreiðsla smita vaxandi á meðal barna og því mikilvægt að ná góðri þátttöku í bólusetningu þeirra.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Spá um 20 á gjörgæslu

Þórólfur sagði að stefna þurfi í að dagleg smit vegna veirunnar verði um 500 dag til að heilbrigðiskerfið geti ráðið við verkefnið.

Ómíkron-afbriðið greinist núna í um 90% tilfella á meðan Delta-afbriðið greinist daglega hjá um og yfir 100 manns. Hlutfall þeirra sem þurfa að leggast inn á spítala vegna alvarlegra veikinda er um 0,5% af öllum greindum smitum. Hlutfallið er heldur lægra þegar um er að ræða Ómíkron eða 0,2-0,3%.

Spálíkön frá Háskóla Íslands og Landspítalanum sýna að daglegur fjöldi smita mun halda áfram að vera um og yfir eitt þúsund fram eftir mánuðinum. Fjöldi inniliggjandi á Landspítalanum á sama tíma verður samkvæmt líkönunum um 70 seinnipartinn í mánuðinum og um 20 manns verða á gjörgæslu, sagði Þórólfur. 

Ónæmi aukist hægt og bítandi

Þórólfur sagði útlitið ekki bjart akkúrat núna en að til lengri tíma litið væri það bjart. Átti hann þar við næstu vikur eða mánuði. Útbreidd bólusetning muni þar hjálpa til við að auka ónæmi hægt og bítandi í samfélaginu. Þá verði hægt að slaka á takmörkunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert