Metfjöldi nýrra tilfella kórónuveirunnar

Sjúklingur fluttur á sjúkrahús í Mílanó í síðustu viku.
Sjúklingur fluttur á sjúkrahús í Mílanó í síðustu viku. AFP

Fleiri en 500 þúsund ný tilfelli kórónuveirusmita voru tilkynnt á heimsvísu í gær, samkvæmt samantekt AFP. Um er að ræða nýtt met.

Samtals voru 516.898 tilfelli tilkynnt og 7.723 andlát.

Fjölgunina má einungis að hluta rekja til þeirrar staðreyndar að skimanir eru viðameiri nú en í fyrstu bylgju faraldursins í mars og apríl.

Nærri tvö þúsund deyja daglega

Evrópa hefur aftur tekið við sem þungamiðja faraldursins, sem er nú í hraðri útbreiðslu á meginlandinu.

Á síðustu sjö dögum hafa að meðaltali 220 þúsund ný tilfelli komið fram daglega, og hefur þeim fjölgað um 44% frá vikunni þar á undan.

Nærri tvö þúsund manns láta nú lífið daglega í álfunni af völdum veirunnar, á sama tíma og ríkisstjórnir reyna í óðaönn að setja á nýjar takmarkanir til að halda þessari nýju bylgju í skefjum.

500 þúsund í Bandaríkjunum á sjö dögum

Vestan Atlantshafsins horfa Bandaríkin einnig fram á fjölgun tilfella. Meira en 500 þúsund ný tilfelli hafa komið fram á síðustu sjö dögum og er þar einnig um met að ræða. Í vikunni þar á undan komu fram 370 þúsund ný tilfelli.

Þau tíu ríki sem verst eru leikin af veirunni um þessar mundir stóðu undir meiri en helmingi þeirra rúmlega 500 þúsund tilfella sem tilkynnt voru í gær, en þau eru: Bandaríkin, Indland, Brasilía, Rússland, Frakkland, Spánn, Argentína, Kólumbía, Bretland og Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert