Innlent

Stærðarinnar smíðaverkstæði brunnið í Fljótsdal

Árni Sæberg skrifar
Brunavarnir Austurlands eru á vettvangi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Brunavarnir Austurlands eru á vettvangi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Fjárhús við bæinn Víðivelli 1 í Fljótsdalshreppi stendur í ljósum logum eftir að eldur kom upp í því um klukkan 21 í kvöld. Slökkvistarf gengur vel og hvorki menn né málleysingjar voru í húsunum, enda hefur það um árabil verið notað sem smíðaverkstæði.

Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Austurlands, segir í samtali við Vísi að slökkvilið sé mætt á staðinn og að menn standi í ströngu við að ráða niðurlögum eldsins. Hann segir að slökkvistarf gangi vel og að enginn hafi verið í húsinu þegar eldurinn kviknaði.

Í frétt Austurfréttar, sem greindi fyrst frá brunanum, segir að fjárhúsið hafi ekki verið notuð sem slíkt um árabil heldur hafi það verið notað sem trésmíðaverkstæði.

Hörður Guðmundsson, sem leigir fjárhúsið, sem er um 400 fermetrar að stærð, undir trésmíðaverkstæði sitt, segir í samtali við Vísi að svo megi segja að verkstæðið hans sé brunnið til kaldra kola ásamt öllum hans verkfærum. Þeirra á meðal séu stórar trésmíðavélar og því ljóst að tjónið sé mikið.

Hann segir að vel hafi gengið að hemja eldinn og að hann hafi ekki náð að læsa sér í nærliggjandi hlöðu. Þar séu aðeins sótskemmdir.

Þá segir í frétt Austurfréttar að bærinn Víðivellir 1 standi nánast beint á móti félagsheimilinu Végarði Suðurdalsmegin. Þar hafi fólk verið við undirbúning þorrablót og orðið vart við eldinn upp úr klukkan 21.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×