Besti leikmaður B-deildarinnar til Aston Villa

Emiliano Buendía sló í gegn með Norwich á síðustu leiktíð.
Emiliano Buendía sló í gegn með Norwich á síðustu leiktíð. Ljósmynd/CabineSport

Emiliano Buendía er að ganga til liðs við enska knattspyrnufélagið Aston Villa. Þetta tilkynnti enska félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Buendía, sem er 24 ára gamall sóknarsinnaður miðjumaður, kemur til félagsins frá Norwich sem fór með sigur af hólmi í ensku B-deildinni og tryggði sér þar með sæti í efstu deild á dögunum.

Sóknarmaðurinn skoraði fimmtán mörk og lagði upp önnur sautján í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð en hann var útnefndur besti leikmaður B-deildarinnar fyrir frammistöðu sína með Norwich.

Buendía á eftir að gangast undir læknisskoðun hjá félaginu en hann er nú staddur í Argentínu með argentínska landsliðinu þar sem það undirbýr sig fyrir leik gegn Kólumbíu í Suður-Ameríkuriðli undankeppni HM.

Aston Villa þarf að borga 33 milljónir punda fyrir leikmanninn sem verður dýrasti leikmaður í sögu Villa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert