„Það er ekki verra en það“

Arnór Smárason, lengst til hægri, fylgist með Birki Má Sævarssyni …
Arnór Smárason, lengst til hægri, fylgist með Birki Má Sævarssyni skalla boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Arnór Smárason telur Val aftur vera komið á gott skrið eftir að liðið vann annan sigur sinn í Bestu deild karla í knattspyrnu í röð í kvöld. Liðið lagði þá Leikni úr Reykjavík naumlega að velli, 2:1, þar sem Arnór skoraði fyrra mark Vals.

„Leiknir er með flott lið. Ég er alveg sannfærður um það að þeir eigi eftir að ná í miklu fleiri stig. Mér finnst taflan svolítið ljúga miðað við spilamennskuna hjá þeim. Bara hrós á þá.

Þetta er fyrst og fremst flottur karakterssigur hjá okkur. Við lendum undir í byrjun leiks og náum að snúa því og vinna 2:1 sem er bara frábært og gott að við klárum þessa júní hrinu með tveimur sigrum.

Nú kemur smá pása aftur þannig að nú getum við haldið áfram að slípa okkur saman og koma öllum í toppstand. Við erum mjög ánægðir í dag,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður hvort það væri að einhverju leyti slæmt að pása sé að fara í hönd núna þar sem Valur hefur unnið tvo leiki í röð og því gæti það verið freistandi að spila aftur sem fyrst sagði hann:

„Nei, nei, þetta gefur okkur ennþá meiri tíma til þess að slípa það sem viljum til á æfingasvæðinu. Við erum búnir að vera með menn í meiðslum, menn hafa verið tæpir að spila þannig að þessi pása gefur okkur auka daga til þess að koma öllum í gang og vonandi gerum við það.

Þetta gefur okkur bara sjálfstraust að fara inn í tveggja vikna æfingatörn þar sem við getum tekið á því og það er bara góð stemning. Við erum þannig séð mættir aftur og ætlum að reyna að saxa svolítið á þetta forskot.“

Komnir upp aftur

Valur fór með sigrinum í kvöld upp í fjórða sæti deildarinnar þar sem liðið er með 19 stig, jafnmörg og Stjarnan og Víkingur úr Reykjavík í sætunum fyrir ofan og átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks.

„Það er ekki verra en það. Öll þessi lið vilja náttúrlega vinna þessa deild þannig að það þurfa allir að saxa á liðið í fyrsta sæti, það er bara þannig.

Við byrjuðum mótið vel, svo kom þarna smá „down“ kafli hjá okkur og svo erum við komnir upp aftur,“ bætti Arnór við, en Valur tapaði fjórum leikjum í röð áður en liðið vann Breiðablik í síðustu viku og Leikni í kvöld.

„Við ætlum að halda áfram og taka leik fyrir leik. Liðsheildin er góð og hópurinn fullur af gæðum þannig að við erum bara spenntir fyrir framhaldinu,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert